Innlent

Viðbragðshópur kallaður saman vegna vatnavaxta í Fjallabyggð

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Siglufirði í dag þar sem allt var á floti, vægast sagt.
Frá Siglufirði í dag þar sem allt var á floti, vægast sagt. mynd/andri freyr sveinsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur óskað eftir því að viðbragðshópur verði kallaður saman vegna ástandsins sem skapast hefur í Fjallabyggð undanfarna daga vegna óvenju mikillar úrkomu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Viðbragðshópurinn veður skipaður ráðuneytisstjórum og fulltrúum viðeigandi stofnana og er honum ætlað að meta hvernig bregðast megi við ástandinu, meðal annars í samráði við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð.

„Þarna hafa átt sér stað mjög óvenjulegir atburðir. Nauðsynlegt er að bregðast skjótt við, fara yfir stöðuna með okkar lykilstofnunum og meta hugsanleg viðbrögð. Það munum við gera í góðri samvinnu við heimamenn,“ er haft eftir forsætisráðherra í tilkynningunni.

Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, lýsti því í samtali við Vísi fyrr í dag að djöfullega gengi að ráða við ástandið á svæðinu. Mjög margar aurskriður hafa fallið víða og Hólavegur á Siglufirði fór í sundur. Ljóst er að vatnstjón er mikið í bænum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×