Innlent

Allt á floti á Ströndum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegir eru í sundur víða í Árneshreppi.
Vegir eru í sundur víða í Árneshreppi. Mynd/Lovísa V. Bryngeirsdóttir
„Það er allt á floti,“ segir Jón Guðbjörn Guðjónsson, veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík á Ströndum. Frá klukkan sex í gærkvöldi og til níu í morgun var úrkoman 74,7 millimetrar. Jón segir það vera nærri því meðal mánaðarúrkoma á svæðinu.

Jón segir að úrkoman hafi þó minnkað í dag en sé enn mikil. Hann birti nokkrar myndir af vatnavöxtunum á heimasíðu sinni Litli Hjalli.

Jón þurfti að vaða út að úrkomumælinum í morgun.Mynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson
„Það hefur verið mikil úrkoma á Ströndum í allt sumar og þá sérstaklega þennan mánuð, en rigningin hefur aldrei verið eins mikil og nú. Þetta er alveg sérstakt. Ég hef aldrei upplifað þetta fyrr á mínum tuttugu árum sem veðurathugunarmaður.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er vegurinn norður í Árneshrepp lokaður frá Kalbaksvík og norður úr. Á þeirri leið hefur vegurinn farið í sundur á mörgum stöðum og einnig hafa skriður fallið á hann. Á fjölmörgum stöðum hefur einnig farið úr hliðum vega.

Þetta er mjög mikið tjón og það mun taka tíma að gera veginn færan aftur. Starfsmenn Vegagerðarinnar eru byrjaðir að skoða veginn og líklega mun hann ekki vera opnaður í kvöld.

Frá klukkan sex í gær til níu í morgun var úrkoman 74,7 millimetrar.Mynd/Lovísa V. Bryngeirsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×