Matthías Vilhjálmsson var hetja Rosenborg gegn Mjøndalen í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en Matthías skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Rosenborg.
Staðan var markalaus í hálfleik, en heimamenn í Rosenborg voru mun sterkari á Lerkendal-vellinum í Þrándheimi.
Fyrsta og eina mark leiksins gerði Ísfirðingurinn Matthías Vilhjálmsson á 62. mínútu eftir að boltinn hrökk til hans frá Anders Konradsen.
Þetta reyndist eina mark leiksins, en þetta er þriðja mark Matthíasar fyrir félagið. Hann skoraði í bikarleik gegn Mjøndalen fyrir tíu dögum síðan og einnig skoraði hann í Evrópuleik gegn Debrecen.
Matthías var tekinn af velli á 70. mínútu, en Hólmar Örn Eyjólfsson stóð vaktina í vörn Rosenborg sem er með sjö stiga forystu á toppi norsku deildarinnar þegar níu leikir eru eftir.
Markið má sjá hér.
