Handbolti

Alexander skoraði fimm í sigri Löwen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alexander var heitur í dag.
Alexander var heitur í dag. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen og ThSV Eisenach byrja vel í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta, en bæði lið unnu leiki sína í fyrstu umferðinni sem hófst í dag.

Löwen var 10-8 undir gegn Lemgo eftir átján mínútna leik, en skoraði þá þrjú mörk í röð og breytti stöðunni í 10-11. Eftir það var ekki aftur snúið. Staðan í hálfleik var 16-12, en lokatölur urðu sex marka sigur Löwen, 32-26.

Uwe Gensheimer var markahæstur Löwen-manna með átta mörk, en Alexander Petersson gerði fimm mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað, en Rolf Hermann og Jonathan Stenbacken gerðu fimm mörk hvor fyrir Lemgo.

Bjarki Már Elísson og félagar í Füchse Berlin töpuðu fyrsta leiknum gegn Melsungen 23-20, en Melsungen leiddi með þremur mörkum í hálfleik 14-12. Bjarki skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik með Füchse. Erlingur Richardsson þjálfar lið Berlínar.

Ólafur Guðmundsson komst ekki á blað í sigri Hannover á Frisch Auf! Göppingen 26-23, en Frisch Auf! leiddu í hálfleik 13-9. Kai Hafner gerði sex mörk fyrir Hannover, en Marcel Schiller gerði níu mörk fyrir Göppingen. Rúnar Kárason gerði eitt mark fyrir Hannover.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði eitt mark úr einu skoti í sigri Eisenach á TuS N-Lübbecke á heimavelli í dag, 31-30. Azat Valiullin reyndist hetjan þegar fimm sekúndur voru til leiksloka. Dirk Holzner gerði tíu mörk fyrir Eisenach, en Jens Schongarth var markahæstur gestanna með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×