Erlent

Kveikt í höfuðstöðvum HDP-flokksins í Tyrklandi

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér sést reykur stíga frá höfuðstöðvum HDP-flokksins í Ankara í Tyrklandi.
Hér sést reykur stíga frá höfuðstöðvum HDP-flokksins í Ankara í Tyrklandi. Vísir/AFP
Hópur mótmælenda réðst á höfuðstöðvar Lýðræðisflokks fólksins, HDP, í Ankara, höfuðborg Tyrklands, fyrr í kvöld.

Myndir frá vettvangi virtust sýna eld í þessum höfuðstöðvum flokks Kúrda en mikil átök hafa verið á milli tyrkneska hersins og herskárra Kúrda sem tilheyra verkamannaflokki Kúrda, PKK. Forsætisráðherra Tyrkja, Ahmet Davutoglu, hefur kallað eftir friði en fyrr í dag fóru tyrkneskir vígamenn til Íraks til að ráðast gegn kúrdískum vígamönnum í fyrsta sinn síðan komið var á vopnahlé fyrir tveimur árum. Tyrkneskar herþotur gerðu einnig loftárásir á búðir PKK í norður Írak.

Átökin í höfuðborginni má rekja til mótmæla þjóðernissinna fyrr í dag eftir að fjórtán lögreglumenn létust þegar rúta var sprengd en grunur leikur á að PKK beri ábyrgð á þeirri árás.

Árásin átti sér stað degi eftir að vígamenn höfðu fellt 16 tyrkneska hermenn.

Þingmaður HDP, Garo Paylan, sagði við fréttaveitu Reuters að hundruð mótmælenda hefðu ráðist á höfuðstöðvar flokksins í Ankara. „Lögreglan fylgist bara með. Það sem er verið að eyðileggja er vonin um að geta lifað saman í sátt og samlyndi,“ sagði Paylan. HDP-flokknum var ætlað að koma á friði á milli tyrkneskra stjórnvalda og vopnaðra frelsisveita Kúrda.

Einnig hafa verið fluttar fregnir af árásum á skrifstofur flokksins í sex öðrum borgum í Tyrklandi, þar á meðal hafði verið kveikt í skrifstofu flokksins í borginni Alanya.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×