Erlent

Tannlæknirinn sem drap Cecil snýr aftur til starfa

Atli Ísleifsson skrifar
Mótmæli hafa átt sér stað fyrir utan stofu Walter Palmer allt frá því að nafn hans var gert opinbert.
Mótmæli hafa átt sér stað fyrir utan stofu Walter Palmer allt frá því að nafn hans var gert opinbert. Vísir/AFP
Bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer hyggst nú snúa aftur til starfa eftir að hafa farið í felur í kjölfar þess að hafa drepið ljónið Cecil í Simbabve fyrr í sumar. Hann fullyrðir að hann hefði aldrei drepið ljónið hefði hann vitað um vinsældir dýrsins.

„Ef ég hefði vitað að ljónið bæri nafn og var mikilvægt landinu eða vegna einhverrar rannsóknar hefði ég að sjálfsögðu ekki drepið það,“ segir Palmer í samtali við AP og Minneapolis Star Tribune.

Palmer og leiðsögumaður hans lokkuðu Cecil út úr þjóðgarðinum í byrjun júlí og var dýrið loks fellt með lásboga. Fyrr í sumar bárust fréttir af því að Cecil hafi gengið um særður í um fjörutíu klukkustundir áður en það drapst. Palmer vill þó meina að það séu einungis sögusagnir og ýkjur.

Palmer vill ekki upplýsa um hvar hann hafi haldið til síðustu vikurnar en hann hyggst snúa aftur til starfa á tannlæknastofu sinni á morgun. Mótmæli hafa átt sér stað fyrir utan stofu hans allt frá því að nafn hans var gert opinbert.

Í frétt SVT kemur fram að Palmer segist miður sín yfir vegna þess sem starfsmenn stofunnar og fjölskylda hans hafi þurft að þola vegna málsins.

Margir hafa krafist þess að Palmer verði framseldur til Simbabve til að hægt verði að rétta yfir honum vegna veiðiþjófnaðar. Lögmaður Palmer segir þó að bandarísk yfirvöld hafi ekki verið í sambandi vegna einhverrar rannsóknar.


Tengdar fréttir

Bróðir Cecils skotinn til bana

Ljónið Jericho hafði annast unga Cecils áður en veiðiþjófar réðu hann af dögunum í Huwange þjóðgarðinum í Simbabve í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×