Sport

Júlían tók gullið á HM unglinga í kraftlyftingum | Myndband

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Íslenski hópurinn.
Íslenski hópurinn. Vísir/Aðsent
Fjórir íslenskir strákar kepptu í dag á HM unglinga í kraftlyftingum í Prag með glæsilegum árangri. Þeir koma heim hlaðnir verðlaunum og metum, og varð íslenska karlaliðið í 6.sæti samanlagt í unglingaflokki.

Júlían J. K. Jóhannsson, Ármanni,  varð  heimsmeistari unglinga í +120 kg flokki með 1012,5 kg samanlagt.

Hann vann auk þess gull í hnébeygju og réttstöðu og silfur í bekkpressu. Tók hann seríuna 375 í hnébeygju, 285 í bekkpressu og 352,5 í réttstöðu.

Júlían hefur lengi stefnt að þessu markmiði og mætti mjög einbeittur til leiks og sjálfsöryggið óx greinilega eftir því sem leið á mótið og hann kláraði með glæsibrag

Viktor Samúelsson, KFA, vann bronsverðlaun í -120 kg flokki með 965 kg samanlagt og fékk líka brons í bekkpressu með 292,5 kg.

Guðfinnur Snær Magnusson, Breiðablik, keppti í -120 kg flokki drengja á sínu fyrsta stórmóti og vann silfurverðlaun með 740 kg samanlagt og silfur í hnébeygju og bekkpressu.

Þorbergur Guðmundsson, Patreksfirði  vann silfurverðlaun í réttstöðu í +120 kg flokki unglinga og lenti þar í 4.sæti samanlagt.

Myndband af einni lyftu Júlíans má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×