Erlent

Neitar enn að veita samkynja pörum hjónabandsleyfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Davis er hér fyrir miðju. Þessu pari var neitað um leyfi fyrr í mánuðinum.
Kim Davis er hér fyrir miðju. Þessu pari var neitað um leyfi fyrr í mánuðinum. Vísir/Getty
Kim Davis, starfsmaður sýslumannsins í Rowan sýslu í Kentucky í Bandaríkjunum, neitar að veita samkynja pörum giftingaleyfi. Hún byrjaði á því eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna gerði hjónabönd aðila af sama kyni lögleg í júní.

Ríkisstjóri Kentucky sagði öllum starfsmönnum að veita slík leyfi, en hún hefur neitað að gera það vegna trúar sinnar. Eftir að hún tapaði málaferlum fyrir dómstólum fór hún með málið til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Þar var máli hennar hafnað og úrskurðaði Hæstiréttur í gær að hún hefði engin lagaleg rök til að neita að veita samkynja pörum giftingarleyfi.

Þegar Kim Davis mætti til vinnu í morgun biðu nokkur pör eftir því að fá áðurnefnt leyfi. Þeir James Yates og Will Smith Jr. fóru fram á slíkt leyfi en var neitað af Kim Davis. Þegar hún var spurð í hvers valdi hún væri að neita þeim sagðist hún gera það í valdi Guðs.

Samkvæmt AP fréttaveitunni rifust þeir við Davis, en þetta er í fimmta sinn sem þeir fara fram á giftingarleyfi og hefur þeim alltaf verið hafnað. Þeir neituðu að tjá sig við fjölmiðla þegar þeir yfirgáfu skrifstofuna „rauðir um augun og skjálfandi,“ eins og það er orðað af AP.

Hér má sjá samkynja pör ræða við Kim Davis nú í morgun. Hér að neðan má sjá viðtal við samstarfsmann Kim Davis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×