Handbolti

Alfreð hóar í gamlan ref

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oprea er óvænt kominn til Kiel.
Oprea er óvænt kominn til Kiel. vísir/getty
Þýsku meistararnir í Kiel hafa samið við hornamanninn Dragos Oprea um að leika með liðinu út tímabilið.

Þessi 32 ára leikmaður, sem er fæddur í Rúmeníu en er þýskur ríkisborgari, lék með Göppingen um 13 ára skeið, eða frá 2002 til 2015.

Eftir síðasta tímabil samdi Oprea við neðri deildarliðið TV Stenheim áður en Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, hóaði í hann.

Oprea er ætlað að fylla skarð Torstens Jansen og Dominik Klein í vinstra horninu en þeir glíma báðir við meiðsli. Hinn 22 ára gamli Dani, Rune Dahmke, hefur leyst þessa stöðu það sem af er tímabili en Alfreð vildi fá reynslumeiri mann með honum.

„Dragos Oprea býr yfir mikilli reynslu og ég er ánægður að hann gat samið við okkur með svona skömmum fyrirvara,“ sagði Alfreð um þennan nýjasta liðsmann Kiel. Oprea segir sjálfur að tilboðið frá Kiel hafi komið honum á óvart.

„Ég hafði ekki mikinn tíma til umhugsunar og þurfti þess í raun ekki. Ég gat ekki látið mig dreyma um að ég myndi klæðast treyju Kiel,“ sagði Oprea sem lék 21 landsleik fyrir Þýskaland á sínum tíma.

Kiel sækir Zagreb heim í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×