Handbolti

Snorri og Arnór öflugir í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn byrjar vel með Nimes.
Snorri Steinn byrjar vel með Nimes. vísir/getty
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði sex mörk fyrir Nimes sem bar sigurorð af Chambéry, 30-27, í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Nimes fékk því sín fyrstu stig í deildinni en liðið tapaði fyrir Paris Saint-Germain í 1. umferðinni.

Snorri nýtti fimm af níu skotum sínum utan af velli og annað af tveimur vítaköstum sínum. Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði eitt mark fyrir Nimes en gaf fimm stoðsendingar á samherja sína.

Arnór Atlason var markahæstur í liði Saint-Raphael þegar liðið vann fimm marka sigur, 26-21, á Tremblay á heimavelli. Saint-Raphael hefur unnið báða leiki sína í deildinni til þessa.

Arnór skoraði sjö mörk, þar af eitt af vítalínunni. Hann nýtti sex af átta skotum sínum utan af velli.

Meistarar PSG eru með fullt hús stiga eftir sex marka sigur, 27-33, á Ivry á útivelli.

Luc Abalo var markahæstur í liði PSG með sjö mörk en Mikkel Hansen kom næstur með sex. Róbert Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Parísar-liðsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×