Erlent

Hver er þessi næsti forsætisráðherra Ástralíu?

Atli Ísleifsson skrifar
Malcolm Turnbull þykir lengra til vinstri en margir aðrir í Frjálslynda flokknum.
Malcolm Turnbull þykir lengra til vinstri en margir aðrir í Frjálslynda flokknum. Vísir/EPA
Malcolm Turnbull mun taka við embætti forsætisráðherra Ástralíu eftir að hafa hlotið fleiri atkvæði en Tony Abbott forsætisráðherra í formannskjöri Frjálslynda flokksins fyrr í dag.

Í frétt BBC segir að Turnbull þyki hæfur ráðherra, mælskur og vel liðinn þvert á flokkslínur. Hann hefur gegnt embætti ráðherra fjarskiptamála frá árinu 2013.

Frjálslyndi flokkurinn í Ástralíu er íhaldssamur flokkur, en Turnbull er þekktur fyrir frjálslyndar skoðanir sínar, meðal annars þegar kemur að réttindum samkynhneigðra. Þá styður hann aðgerðir ríkja til að bregðast megi við loftslagsbreytingum.

Þessar skoðanir Turnbull eru ekki líklegar til að falla hægrisinnuðustu flokksmönnum Frjálslynda flokksins í geð og óttast þeir að flokkurinn muni breyta um stefnu í fjölda mikilvægra mála.

Einn ríkasti þingmaðurinn

Vinsældir Abbott höfðu minnkað mikið síðustu mánuði og sagði Turnbull ljóst að Frjálslyndi flokkurinn myndi bíða lægri hlut í þingkosningunum á næsta ári, yrði ekki skipt um mann í brúnni.

Tony Abbott var kjörinn formaður Frjálslynda flokksins árið 2009.Vísir/EPA
Turnbull hefur áður starfað sem lögmaður og viðskiptamaður og er einn ríkasti þingmaður landsins. Hann ólst upp í úthverfi Sydney af einstæðu foreldri, stundaði laganám í Sydney-háskóla og aflaði sér svo frekari menntunar í Oxford í Englandi.

Til að byrja með starfaði hann sem fréttamaður, meðal annars hjá Sunday Times í Bretlandi, áður en hann hóf starf sem lögmaður. Á tíunda áratugnum auðgaðist hann mikið eftir að hafa stofnað eitt stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins á þeim tíma, OzEmail.

Kjörinn á þing 2004

Turnbull var kjörinn á þing árið 2004 í kjördæminu Wentworth. Hann var fljótur að komast til metorða innan Frjálslynda flokksins, þar sem hann gegndi stuttlega embætti umhverfis- og vatnsauðlindaráðherra í ríkisstjórn John Howard áður en Verkamannaflokkurinn náði völdum árið 2007.

Árið 2008 var Turnbull kjörinn leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Ári síðar beið hann hins vegar lægri hlut í formennskukjöri Frjálslynda flokksins, þar sem Tony Abbott hlaut einu atkvæði fleira en hann. Var þá talið að afstaða Turnbull til loftslagsmála hafi einna helst leitt til sigurs Abbotts.

Fjórði forsætisráðherrann frá 2013

Turnbull verður fjórði maðurinn til að gegna embætti forsætisráðherra Ástralíu frá árinu 2013. Kevin Rudd bolaði Juliu Gillard úr sæti formanns Verkamannaflokksins og þar með embætti forsætisráðherra í júní 2013, nokkrum mánuðum áður en Abbott og Frjálslyndi flokkurinn unnu sigur í kosningum. Árið 2010 hafði Gillard sjálf sigrað Rudd, sitjandi formann Verkamannaflokksins, í formannskjöri. Síðasti maðurinn til að sitja heilt kjörtímabil í embætti forsætisráðherra var John Howard sem lét af völdum árið 2007.

Turnbull er giftur Lucy Turnbull, áður Hughes, sem varð fyrsti kvenkyns borgarstjóri Sydney-borgar árið 2003.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×