Handbolti

Alexander fór á kostum í öruggum sigri | Úrslit dagsins

Kris skrifar
Alexander Petersson, leikmaður Löwen.
Alexander Petersson, leikmaður Löwen. Vísir/Getty
Alexander Petersson fór á kostum í liði Rhein-Neckar Löwen í tólf marka sigri á Hannover Burgdorf í þýsku deildinni í handbolta í dag. Löwen er með fullt hús stiga eftir fimm leiki.

Alexander var ásamt Mads Mensah Larsen atkvæðamestur í liði Löwen með 7 mörk í aðeins 10 skotum en Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað í liði Löwen.

Rhein-Neckar Löwen leiddi 13-7 í hálfleik og jók forskot sitt eftir því sem leið á hálfleikinn. Lauk leiknum með 30-18 sigri Löwen en liðið hefur unnið alla fimm leiki sína hingað til á tímabilinu.

Rúnar Kárason og Ólafur Guðmundsson léku báðir með Hannover í dag en Rúnar skilað þremur mörkum og Ólafur tveimur.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu öruggan 10 marka sigur á TuS Lübbecke en sigurinn var aldrei í hættu. Leiddi Kiel með fimm mörkum í hálfleik 16-11 og bætti við forskotið í seinni hálfleik og unnu að lokum 33-23 sigur á útivelli.

Gunnar Steinn náði sér ekki á strik í liði Gummersbach sem tapaði 21-30 gegn Hamburg á heimavelli. Gunnar tapaði einum bolta og komst ekki á blað í leiknum.

Úrslit dagsins:

Gummersbach 21-30 Hamburg

TuS Lübbecke 23-33 THW Kiel

Hannover Burgdorf 18-30 Rhein-Neckar Löwen

Magdeburg 28-27 Balingen/Weilstetten




Fleiri fréttir

Sjá meira


×