Erlent

Borgarstjóri München segir borgina ekki geta tekið við fleiri flóttamönnum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Tíu þúsund manns komu til borgarinnar í gær.
Tíu þúsund manns komu til borgarinnar í gær. Vísir/EPA
Borgarstjóri München, þriðju stærstu borgar Þýskalands, segist ekki geta tekið á móti fleiri flóttamönnum. Tíu þúsund komu til borgarinnar í gær. Alls hafa sextíu þúsund flóttamenn lagt leið sína þangað frá því í lok ágúst.

Tíu þúsund flóttamenn komu til München í gær og borgarstjórinn Dieter Reiter segist ekki hafa pláss fyrir fleira fólk. Mörg hundruð flóttamenn sofa á gólfi aðaljárnbrautarstöðvarinnar eftir að hafa komið með lest frá Austurríki til München. Yfirvöld eru að undirbúa að slá upp tjaldbúðum til að taka við flóttamönnum og Ólympíuleikvangurinn hefur einnig verið lagður undir. Þá hefur mætt mikið á bæjarstarfsmönnum og hjálparsamtökum sem útdeila mat og lyfjum til fólks.

Borgin er þriðja stærsta borg Þýskalands og hefur tekið við sextíu þúsund flóttamönnum og innflytjendum frá mánaðamótum, en flestir þeirra koma frá Austurríki og Ungverjalandi. Búist er við að fjörutíu þúsund flóttamenn komi til Þýskalands um helgina en þýsk stjórnvöld hafa gefið út að búist sé við að um 800 þúsund sæki um hæli í Þýskalandi á þessu ári.

Þýskaland er vinsæll áfangastaður flóttamanna frá Sýrlandi eftir að þýsk stjórnvöld gáfu það út í ágúst að tekið yrði á móti sýrlenskum flóttamönnum, líka þeim sem mætti senda til baka til fyrsta áfangastaðar þeirra í Evrópu eins og Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hvað eftir annað biðlað til nágrannaþjóðanna um að hlaupast ekki undan ábyrgð. Ekkert bendir til þess að það dragi úr straumi flóttamanna. Á morgun hittast dómsmála- og innanríkisráðherrar Evrópusambandslandanna til að ræða hvernig skipta megi niður um fjörutíu þúsund flóttamönnum. Strax í kjölfarið verður rætt hvað gera eigi við hundrað þúsund til viðbótar.

Ljóst er að lönd Austur-Evrópu eru ekki tilbúin til að taka við þeim og Þjóðverjar búast við að þúsundir haldi áfram að streyma til Þýskalands frá Ungverjalandi og Serbíu. Yfirvöld í Ungverjalandi hafa viljað loka landamærunum til að halda flóttamönnum í skefjum og kanslari Austurríkis líkti stefnu þeirra í gær við meðferð nasista í Þýskalandi á Gyðingum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×