Erlent

Stefna á sjálfstæði frá Spáni eftir 18 mánuði

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sjálfstæðissinnar fagna niðurstöðum kosninga í miðborg Barcelona.
Sjálfstæðissinnar fagna niðurstöðum kosninga í miðborg Barcelona. NordicPhotos/AFP
Bandalag flokka sem aðhyllast sjálfstæði Katalóníu frá Spáni sigraði í héraðsþingkosningum til katalónska þingsins í gær. Þeir munu freista þess að mynda þingmeirihluta um einhliða aðskilnað við Spán.

Bandalagið, sem kallast Sameinuð um já, fær samkvæmt útgönguspám 63 til 66 þingmenn á héraðsþinginu en líklegt er að bandalagið myndi meirihluta með vinstriflokknum Framboð um þjóðarsamstöðu, sem spáð er á bilinu 11 til 13 þingmönnum. 68 þingmenn þarf til að ná meirihluta á héraðsþinginu, sem telur 135 þingmenn.

Næststærsta framboðið er framboð Borgaraflokksins, sem hafnar þjóðernishyggju og aðhyllist evrópska sambandsstjórnarhyggju. Það fær töluvert færri þingmenn eða 19 til 21.

Bandalagið Sameinuð um já er samstarf hægriflokkanna Lýðræðissamkomu Katalóníu og Demókrataflokks Katalóníu annars vegar og vinstri flokkanna  Vinstri lýðveldisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar hins vegar. Flokkarnir sammældust fyrir kosningarnar um að leggja til hliðar sín hefðbundnu stefnumál til að sameina krafta sína til að tryggja sjálfstæði.

Ef bandalagið tryggir sér þingmeirihluta hefur forseti Katalóníu, Arthur Mas, lofað að Katalónía lýsi yfir einhliða sjálfstæði eftir átján mánuði. Hann vill að Katalónía hefji strax að byggja upp sjálfstæðar stofnanir á borð við seðlabanka, utanríkisþjónustu og her.
 
Íbúar Katalóníu gengu að kjörborðinu í nóvember í fyrra til að greiða atkvæði um sjálfstæði í óformlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. 80 prósent kjósenda voru hlynnt sjálfstæði en stjórnvöld í Madríd viðurkenndu ekki lögmæti kosninganna og hafa heitið því að skjóta öllum yfirlýsingum um sjálfstæði til dómstóla.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur þvertekið fyrir sjálfstæði Katalóníu. „Sjálfstæði er ekki í boði fyrir Katalóníu og Katalónía er hvorki að fara að yfirgefa Spán né Evrópusambandið.“

Rajoy er þeirrar skoðunar að sjálfstæði Katalóníu varði alla Spánverja og því væri réttast að allir íbúar Spánar fengju að kjósa um sjálfstæði Katalóníu. Spán munar miklu um aðild Katalóníu þar sem héraðið, sem telur 16 prósent íbúa Spánar, telur 20 prósent af þjóðarframleiðslu Spánar. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×