Erlent

Kosningar í Katalóníu gætu reynst sögulegar

Bjarki Ármannsson skrifar
Artur Mas, forseti sjálfsstjórnarhéraðsins Katalóníu, greiðir atkvæði sitt í morgun.
Artur Mas, forseti sjálfsstjórnarhéraðsins Katalóníu, greiðir atkvæði sitt í morgun. Vísir/EPA
Katalóníubúar ganga um þessar mundir að kjörborðinu í kosningum sem gætu reynst fyrsta skrefið á leið til sjálfstæðis héraðsins frá Spáni.  Tveir sjálfstæðissinnaðir flokkar eru saman í framboði með það fyrir augum að tryggja sér meirihluta á héraðsþinginu.

Íbúar í Katalóníu hafa lengið kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins en spænskur stjórnskipunardómstóll hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að slík atkvæðagreiðsla sé í andstöðu við stjórnarskrá landsins. Stjórnmálaskýrendur útiloka hins vegar ekki að sjálfstæðissinnar grípi til þess ráðs að lýsa einhliða yfir sjálfstæði vinni þeir sigur í kosningunum í dag.

Kjörstaðir opnuðu klukkan sjö í morgun að íslenskum tíma og loka klukkan sex í kvöld. Rúmlega fimm milljónir manna eru á kjörskrá og segir spænska blaðið El País að klukkan fjögur hafi kjörsókn verið komin upp í rúm sextíu prósent.

Kannanir gefa til kynna að skiptar skoðanir séu meðal Katalóníubúa um hvort héraðið eigi að segja sig frá Spáni, þó meirihluti sé hlynntur því að fá að kjósa um það.


Tengdar fréttir

Styðja sjálfstæði Katalóníu

Þúsundir komu saman til að sýna kröfunni um sjálfstæði sjálfsstjórnarhéraðsins Katalóníu stuðning í Barcelóna á Spáni í gær.

Sjálfstæði ekki í samræmi við stjórnarskrá

Stjórnvöld á Spáni telja að fyrirhuguð atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Katalóníu sé ekki í samræmi við stjórnarskrá landsins og ætla að vísa málinu til stjórnlagadómstóls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×