Handbolti

Aron: Hasar í gangi hjá liðinu

Tómas þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson fær strax nýjan þjálfara hjá Veszprém.
Aron Pálmarsson fær strax nýjan þjálfara hjá Veszprém. vísir/epa
Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, er varla farinn af stað með nýju félagsliði sínu MVM Veszprém í Ungverjalandi en búið er að reka þjálfara liðsins.

Spánverjinn Carlos Ortega fékk að taka pokann sinn eftir jafntefli gegn pólska liðinu Wisla Plock í Meistaradeildinni og tap gegn Erlingi Richardssyni og lærisveinum hans í úrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða í byrjun tímabilsins.

„Það er óhætt að segja að það sé hasar í gangi hjá liðinu. Þessi brottrekstur kom eins og köld vatnsgusa framan í okkur og maður er svona enn að átta sig á þessu,“ segir Aron í viðtali við Morgunblaðið í dag.

„Við mættum á æfingu klukkan tíu á mánudagsmorguninn og þar tjáðu eigendurnir að það væri búið að reka þjálfarann.“

Aron kom til Veszprém frá Kiel þar sem hann var undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Alfreð hefur unnið hvern titilinn á fætur öðrum undanfarin ár og er því nokkuð öruggur í starfi.

„Svona staða er algjörlega ný fyrir mig. Það kom aldrei til greina að reka Alfreð á þeim sex árum sem ég spilaði með Kiel,“ segir Aron.

„Það er svolítið skrýtið andrúmsloft hjá klúbbnum núna en við erum atvinnumenn og látum þetta ekkert slá okkur út af laginu,“ segir Aron Pálmarsson við Morgunblaðið.

Veszprém leitar nú logandi ljósi að nýjum þjálfara, en liðið mætir Flensburg í Meistradeildinni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×