Erlent

Ný andlit í nýrri ríkisstjórn Tsipras

Atli Ísleifsson skrifar
Alexis Tsipras og Euklidis Tsakalotos.
Alexis Tsipras og Euklidis Tsakalotos. Vísir/AFP
Alexis Tsipras, nýr forsætisráðherra Grikklands, kynnti nýja ríkisstjórn sína í morgun. Sérfræðingar munu gegna veigamiklum embættum sem snúa að fjármálum og flóttamannamálum.

Euklidis Tsakalotos, fyrrum aðalsamningamaður Grikklands í Brussel og fjármálaráðherra, aftur setjast í stól fjármálaráðherra. Giorgos Chouliarakis, hagfræðiprófessor og fjármálaráðherra í fráfarandi bráðabirgðaríkisstjórn, verður aðstoðarfjármálaráðherra.

Tsakalotos og Chouliarakis gegndu báðir veigamiklum hlutverkum í samningaviðræðum grískra stjórnvalda við lánardrottna sína sem lauk með samkomulagi í ágúst síðastliðinn. Þeir munu því starfa áfram að því að framfylgja ákvæðum samkomulagsins um einkavæðingu og frekari aðhaldsaðgerðir í skiptum fyrir frekari lán.

Tsakalotos tók við embætti fjármálaráðherra í sumar eftir að Yanis Varoufakis lét af embætti.

Annar sérfræðingur sem tekur við mikilvægu embætti í ríkisstjórninni er Yiannis Mouzalas sem einnig átti sæti í bráðabirgðaríkisstjórninni fyrir kosningarnar.

Mouzalas hefur lengi starfað að mannúðarmálum í frjálsum félagasamtökum og tekið virkan þátt í hjálparstörfum, meðal annars í sýrlensku borginni Kobane. Hann mun sinna málefnum flóttamanna í nýrri ríkisstjórn.

Syriza og Sjálfstæðir Grikkir mynda nýja ríkisstjórn, en flokkarnir störfuðu einnig saman eftir þingkosningarnar í janúar.


Tengdar fréttir

Evrópusambandið fagnar sigri Tsipras

"Framkvæmdastjórnin óskar Alexis Tsipras til hamingju með sigurinn,” sagði Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við fréttamenn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×