Erlent

Evrópusambandið fagnar sigri Tsipras

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alexis Tsipras gekk í gær á fund Prokopis Pavlopúlos forseta, eftir að hafa unnið nokkuð óvæntan kosningasigur um helgina.
Alexis Tsipras gekk í gær á fund Prokopis Pavlopúlos forseta, eftir að hafa unnið nokkuð óvæntan kosningasigur um helgina. NordicPhotos/AFP
„Framkvæmdastjórnin óskar Alexis Tsipras til hamingju með sigurinn,” sagði Margaritis Schinas, talsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við fréttamenn í gær.

Tsipras vann ótvíræðan sigur í þingkosningum á sunnudaginn, litlu minni sigur en þann sem hann vann í byrjun ársins þegar vinstriflokkur hans, SYRIZA, komst til valda út á harða gagnrýni sína á samstarf fyrri stjórnar við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Schinas minnti á að í sumar hefði Tsipras samið við Evrópusambandið um erfiðar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Með sigri sínum hefði Tsipras og flokkur hans tryggt sér umboð þjóðarinnar til að framkvæma þessar aðgerðir eins og um var samið.

„Mikið verk er óunnið og engan tíma má missa,“ sagði Schinas.

SYRIZA hlaut 35 prósent atkvæða og getur myndað nauman meirihluta með samstarfsflokki sínum, Óháðum Grikkjum, sem fékk þó innan við fjögur prósent atkvæða. Saman eru flokkarnir með 155 þingsæti af 300.

Sigurinn er nokkuð óvæntur, ekki síst vegna þess að margir þingmenn og flokksfélagar höfðu yfirgefið SYRIZA vegna óánægju með samninginn við Evrópusambandið.

Hægri flokkurinn Nýtt lýðræði hlaut næstflest atkvæði í kosningunum, og má búast við að sá flokkur muni styðja að miklu leyti aðhaldsaðgerðir stjórnarinnar, enda studdi flokkurinn samninginn við ESB í sumar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×