Handbolti

Stelpurnar hefja leik í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Vísir
Ísland mætir Frakklandi ytra í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016 í dag en leikurinn fer fram í Antibes í suðurhluta Frakklands.

Ísland er í sterkum riðli en auk Frakklands eru Þýskaland og Sviss mótherjar Íslands. Tvö lið af fjórum komast upp úr riðlinum og er ljóst að baráttan verður hörð.

Fyrsti leikur riðilsins fór fram í gærkvöldi en þá unnu Þjóðverjar öruggan sigur á Svisslendingum, 29-18. Ísland mætir Þýskalandi hér heima á laugardag.

Birna Berg Haraldsdóttir er ekki með íslenska landsliðinu þar sem hún er að jafna sig á krossbandsslitum og þá er hornamaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir ólétt. Að öðru leyti er landsliðið með sama kjarna og síðustu ár.

Ísland var í riðli með Frakklandi í undankeppni EM fyrir tveimur árum síðan og tapaði þá báðum leikjunum. Frakkar unnu leikinn ytra með fimm marka mun og sex marka mun á Íslandi. Frakkar náðu svo fimmta sæti á EM fyrir tveimur árum síðan en lokakeppnin fer nú fram í Svíþjóð.

Tveir leikmenn Íslands leika í frönsku úrvalsdeildinni - þær Karen Knútsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir en báðar eru á mála hjá Nice.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×