Handbolti

Alfreð sendir Jicha tóninn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð ræðir við Jicha á síðustu leiktíð.
Alfreð ræðir við Jicha á síðustu leiktíð. Vísir
Alfreð Gíslason er ekki ánægður með hegðun tékknesku skyttunar Filip Jicha sem yfirgaf herbúðir Kiel í sumar og samdi við Barcelona.

Jicha átti eitt ár eftir af samningi sínum við Kiel en setti mikla pressu á forráðamenn Kiel að ganga að tilboði Barcelona, sem svo var gert.

Jicha skildi eftir sig stórt skarð í leikmannahópi Kiel, sem missti einnig Aron Pálmarsson til Veszprem og leyfði Dananum Rasmus Lauge að fara til Flensburg.

„Ef við hefðum vitað í apríl [að Jicha færi] hefðum við aldrei látið Rasmus Lauge fara til Flensburg,“ sagði Alfreð og sagði að félaginu hefði í raun aldrei staðið annar kostur til boða en að taka tilboði Barcelona og verða að óskum Jicha.

„Hinn kosturinn hefði verið að skikka hann til að vera áfram og taka því leikriti sem því hefði fylgt,“ var haft eftir Alfreð í viðtali við tímariitið Handball inside.

Jicha var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Kiel en Alfreð segir að brotthvarf hans í sumar hafi breytt miklu. „Lövgren og Ahlm hefðu aldrei gert neitt þessu líkt,“ sagði Alfreð og vísaði til Svíanna Stefan Lövgren og Marcus Ahlm sem léku báðir með Kiel í áratug og eru goðsagnir hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×