Innlent

Fötluðum börnum mismunað eftir búsetu þar sem úrræðin þykja of dýr

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sum sveitarfélög veigra sér við að borga fyrir dvöl í Vinakoti þar sem plássið kostar allt frá einni milljón upp í níu milljónir á mánuði. Aðalheiður Bragadóttir eigandi og stofnandi Vinakots segir að sveitarfélögin ráði ekki vel við að taka ábyrgð á þessum hópi. Misjafnt er eftir sveitarfélögum hvort börn og unglingar með þroska- og hegðunarraskanir eins og væga einhverfu eða ADHD , sem sýna áhættuhegðun geta fengið úrræði við sitt hæfi. Einkafyrirtækið Vinakot, er eina stofnunin sem býður upp á langtímavistun fyrir börn með fjölþættan vanda en hefðbundin úrræði, hafa ekki þótt henta þessum hópi.

Steinunn Harðardóttir er móðir 17 ára stúlku í Hafnarfirði sem hefur notið þjónustu Vinakots, en stofnunin aðstoðar börn og unglinga í alvarlegum vanda. Hún hefur ráðið sér lögfræðing og útilokar ekki að stefna bænum fyrir dómstóla þar sem hann neitar að greiða lengur fyrir þjónustuna. Hún segir að á sama tíma og bærinn ætli að taka dóttur hennar af heimilinu og senda á fósturheimili fái önnur börn inni sem eiga jafnvel við minni vanda að stríða af því þeirra sveitarfélög greiði reikninginn.

Öryrki vegna ástandsins

Steinunn segir að hún sé með vottorð frá geðlækni um að dóttir sín þurfi gæslu allan sólarhringinn, vegna hættu á að hún strjúki burt eða skaði sjálfa sig en hún er bæði á ein. Þrátt fyrir þetta vill bærinn senda hana á fósturheimili þar sem það er ódýrara. Hún segir að fjölgreind börn séu á olnbogabörnin í kerfinu og enginn vilji taka ábyrgð á þessum hópi. Ódæmigerð einhverfa geti orðið mjög erfið viðfangs, ef börnin fái ekki stöðugan stuðning, sérstaklega ef þau séu líka með ADHD eða þunglyndi og kvíða.

Hún segir að fjölskyldulífið hafi verið í rúst áður en þau kynntust Vinakoti og öll fjölskyldan hafi þjáðst af kvíða. Allir hafa vakað og sofið eins og hún vildi. Hún sé einstæð móður fimm barna en hafi verið öryrki um margra ára skeið. Hún segist rekja það til þess að hún hafi í raun ekkert ráðið við ástandið. Hún segist vera að ná sambandi við dóttur sína í fyrsta sinn en hún geri sér núna grein fyrir því að hún þurfi hjálp, hún hafi getað stundað nám með aðstoð heimilisins og hafi verið ánægð, þar til það varð skyndilega óljóst hvort hún fengi að vera þar lengur, þá hafi þunglyndið aftur tekið sig upp. Katrín Oddsdóttir lögfræðingur mæðgnanna segir að það versta sem gæti gerst, væri ef stúlkan yrði tekin af heimilinu áður en málið verður leitt til lykta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×