Handbolti

Guðjón Valur með þrjú í Ungverjalandi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðjón Valur í leik með Barcelona.
Guðjón Valur í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Barcelona unnu nauman 29-28 sigur á Szeged í Ungverjalandi í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í dag en Guðjón Valur setti þrjú mörk í leiknum.

Börsungar leiddu að fyrri hálfleik loknum 13-12 en náðu þriggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks.

Þeim tókst að halda forskotinu það sem eftir lifði leiksins en ungverska liðinu tókst að minnka muninn niður í eitt mark rétt fyrir lokaflautið.

Sigurinn þýðir að Barcelona fer upp í 3. sæti í B-riðli Meistaradeildar Evrópu eftir þrjár umferðir, upp fyrir pólska félagið Kielce.

Guðjón Valur var með þrjú mörk úr þremur skotum en atkvæðamestir í liði Barcelona voru þeir Kiril Lazarov, Raul Entrerrios, Filip Jicha og Victor Tomas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×