Erlent

Skotinn af lögreglu og barinn af almenningi fyrir misskilning

Samúel Karl Ólason skrifar
Mulu Habtom lést á sjúkrahúsi skömmu eftir árásina.
Mulu Habtom lést á sjúkrahúsi skömmu eftir árásina. Vísir/EPA
Lögreglan í Ísrael leita nú fólks sem tók þátt í árás á saklausan farandverkamann í gær. Farandverkamaðurinn, Mulu Habtom frá Eritreu, hafði verið skotinn af öryggisverði fyrir misskilning og eftir það réðust vegfarendur á hann.

Ísraelskur arabi gerði skotárás á umferðarmiðstöð í Beersheba í suður Ísrael. Mohannad al-Okbi, 21 árs, tók byssu af hermanninum Omri Levy, 19 ára, og skaut hann til bana. Því næst skaut hann á hóp fólks og særði tíu manns.

Öryggisverðir skutu árásarmanninn til bana, en fyrir misskilning skutu þeir Habtom einnig.

Vegfarendur spörkuðu í Habtom og köstuðu stólum í hann, þar sem hann lá í blóði sín á gólfi miðstöðvarinnar, en hann lést svo á sjúkrahúsi skömmu seinna. Atvikið náðist á myndband og var það birt í sjónvarpi í Ísrael í gær.

Samkvæmt CNN hefur myndbandið vakið mikinn óhug í landinu þar sem gífurleg spenna ríkir nú. Átta Ísraelar og minnst 40 Palestínumenn hafa látið lífið og tugir særst vegna fjölda hnífa- og skotárása í Ísrael síðustu vikur.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Ísrael, Emmanuel Nahshon, segir atvikið til merkis um hve slæmt ástandið á svæðinu sé núna.

Habtom vann á leikskóla í Ísreal, en á vef Breska ríkisútvarpsins er haft eftir einum af þeim sem tóku þátt í að ganga í skrokk á honum.

„Ég sá fólk hópast í kringum hann og mér skyldist að hann væri hryðjuverkamaður. Ef ég hefði vitað að svo væri ekki hefði ég varið hann eins og sjálfan mig.“ Hann sagðist hafa verið svo hræddur að hann hefði ekki gert sér grein fyrir hvað hann væri að gera.

Lögreglan leitar nú þeirra sem tóku þátt í árásinni og ætla sér að handtaka þá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×