Erlent

Fjöldi fæðingarbletta gefur vísbendingar um hættuna á sortuæxli

Vísir/Getty
Ný bresk rannsókn bendir til þess að þeir sem eru með fleiri en ellefu fæðingarbletti á hægri handlegg eru í meiri hættu en aðrir að fá sortuæxli. Greint er frá niðurstöðunum í nýjasta hefti læknatímaritsins British Journal of Dermatology.

Notast var við rannsóknir á þrjúþúsund tvíburum á Bretlandseyjum og kom í ljós að með því að telja aðeins fæðingarbletti á hægri hendinni má áætla um heildarfjölda slíkra bletta á öllum líkamanum. Um þrettán þúsund manns glíma við sortuæxli á hverju ári á Bretlandi en það er tegund húðkrabbameins sem verður til út frá óreglulegum fæðingarblettum.

Fólk með fleiri en sjö bletti á hægri hendi eru níusinnum líklegra en aðrir til að vera með fimmtíu bletti í það heila og þeir sem eru með ellefu bletti á handleggnum eru líklega með fleiri en hundrað fæðingarbletti á öllum líkamanum og þarmeð líklegri til að mynda sortuæxli. Vísindamennirnir segja að niðurstöðurnar ættu að gefa heimilislæknum færi á að meta líkurnar á krabbameini hjá skjólstæðingum sínum með þessum einfalda hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×