Erlent

Harmleikur í Chicago: Skaut þriggja ára bróður sinn til bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fyrir utan heimili drengjanna í Chicago
Fyrir utan heimili drengjanna í Chicago mynd/Abc
Sex ára gamall drengur skaut bróður sinn, þriggja ára, til bana fyrir slysni í Chicago í Bandaríkjunum í gær. Bræðurnir höfðu við í „löggu og bófa-leik“ þegar slysið varð. Faðir drengjanna segir að hann hafi keypt byssuna ólöglega af meðlimi glæpagengis er fram kemur í frétt ABC um málið.

Að sögn lögregluyfirvalda í borginni höfðu drengirnir verið að leik á laugardag þegar eldri strákurinn teygði sig í byssuna sem lá ofan á ísskápnum. Byssan var fullhlaðin og hljóp skot úr byssunni fyrir slysni þegar henni var beint að þeim yngri. Skotið hafnaði í andliti drengsins sem var drifinn á sjúkrahús. Hann lést af sárum sínum aðfaranótt sunnudags.

Faðir drengjanna var handtekinn í kjölfarið vegna gruns um vanrækslu. Að sögn saksóknara hafði faðirinn keypt byssuna ólöglega og geymdi hana í náttfötunum ofan á ísskápnum. Hann á þá einnig að hafa sýnt drengjunum hvar hana var að finna.

„Hann keypti byssuna til að verja sig en hann er fyrrum meðlimur glæpagengis sem vitnaði gegn öðrum meðlimi gengisins,“ er haft eftir saksóknaranum úr réttarsalnum.

Málið er talið kristalla þann vanda sem borgin stendur frammi fyrir en yfirvöld hafa lengi reynt að stemma stigu við sölu ólöglegra skotvopna í Chicago.

Margfalt fleiri ólögleg skotvopn eru gerð upptæk í borginni heldur en í stórborgum á borð við New York og Los Angeles þar sem þó búa töluvert fleiri. 5500 ólöglegar byssur hafa verið gerðar upptækar það sem af er ári.

Morðtíðnin í borginni er einnig sú hæsta í Bandaríkjunum. 370 hafa verið myrtir það sem af er ári samanborið við 306 á sama tíma í fyrra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×