Handbolti

Mikilvægur sigur Magdeburg | Jafnt í Íslendingaslag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir er á sínu öðru tímabili sem þjálfari Magdeburg.
Geir er á sínu öðru tímabili sem þjálfari Magdeburg. vísir/getty
Lærisveinar Geirs Sveinssonar í Magdeburg unnu þriggja marka sigur, 30-33, á nýliðum Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Þetta var aðeins annar sigur Magdeburg í síðustu fimm leikjum en liðið er í 9. sæti deildarinnar með 11 stig.

Daninn Michael Damgaard var markahæstur í liði Magdeburg með 10 mörk en Matthias Musche og Jure Natek komu næstir með sex mörk hvor.

Füchse Berlin og Hannover-Burgdorf skildu jöfn, 28-28, í Íslendingaslag í Berlín.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk fyrir Füchse Berlin sem hefur gert jafntefli í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum. Berlínarrefirnir eru í 6. sæti deildarinnar með 13 stig en þeir eiga leik til góða.

Rúnar Kárason var með tvö mörk hjá Hannover-Burgdorf sem situr í 11. sæti deildarinnar með níu stig. Ólafur Guðmundsson lék ekki með liðinu í dag.

Gunnar Steinn Jónsson komst ekki á blað þegar Gummersbach tapaði með sjö mörkum, 25-32, fyrir Flensburg á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×