Fótbolti

Sara sænskur meistari þriðja árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rosengård tapaði aðeins einum leik í sænsku deildinni.
Rosengård tapaði aðeins einum leik í sænsku deildinni. vísir/getty
Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir varð nú rétt í þessu sænskur meistari með Rosengård þriðja árið í röð.

Rosengård var með eins stigs forskot á Glódísi Perlu Viggósdóttur og stöllur hennar í Eskilstuna United fyrir lokaumferðina. Rosengård átti leik gegn Linköpings á meðan Eskilstuna mætti Kopparbergs/Göteborg.

Til að gera langa sögu stutta tryggði Rosengård sér titilinn með glæsibrag, með 5-0 sigri á Linköpings. Sara Björk skoraði fjórða mark Rosengård en þetta var sjöunda mark hennar á tímabilinu.

Rosengård átti flottan endasprett á tímabilinu og Sara og stöllur hennar unnu fjóra síðustu leiki sína með markatölunni 13-0.

Á sama tíma vann Eskilstuna 2-0 sigur á Kopparbergs/Göteborg, en það dugði ekki til. Glódís var á sínum stað í vörn Eskilstuna líkt og Arna Sif Ásgrímsdóttir hjá Kopparbergs/Göteborg.

Glódís lagði upp fyrra mark Eskilstuna í dag en hún lék hverja einustu mínútu (1980) með liðinu í deildinni á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku. Eskilstuna fékk aðeins 15 mörk á sig á tímabilinu, fæst allra liða í sænsku deildinni.

Þá vann Kristianstads 5-0 sigur á AIK. Systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur léku allan leikinn fyrir Kristianstads en Sif Atladóttir kom inn á sem varamaður á 63. mínútu.

Kristianstads endaði í 7. sæti deildarinnar en sigurinn í dag var sá fyrsti hjá liðinu síðan 8. september. Elísabet Gunnarsdóttir stýrir Kristianstads en hún var að klára sitt sjöunda tímabil við stjórnvölinn hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×