Erlent

Koppu hefur náð landi á Filippseyjum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Íbúar bíða nú og vona að fellibylurinn fari sem hraðast yfir landið.
Íbúar bíða nú og vona að fellibylurinn fari sem hraðast yfir landið. vísir/epa
Fellibylurinn Koppu hefur náð landi á Filippseyjum en það gerði hann snemma á sunnudagsmorgni 18. október á stærstu eynni Luzon. Yfirvöld hafa skipað þúsundum íbúa við ströndina að yfirgefa heimili sín og samgöngur liggja að mestu niðri. Þetta kemur fram á BBC.

Vindhraði Koppu hefur mælst rúmir 70 metrar á sekúndu. Fellibylurinn fer hægt yfir og óttast yfirvöld að regnið sem honum fylgir muni hafa mikil áhrif. Nær öruggt er talið að rafmagn muni fara af stórum svæðum en vonast er til þess að flest hús nái að standa fárviðrið af sér.

„Við höfum skipað fólki sem býr við ströndina og nærri árbökkum að fara á brott til staða sem eru öruggir. Tíminn er naumur því veðrið er slæmt og mun verða verra þegar miðja Koppu færist nær okkur,“ segir Alexander Pama en hann stýrir almannavörnum landsins. Herinn er í startholunum með að veita þeim svæðum sem verst verða úti neyðaraðstoð.

Filippseyjar eru enn í sárum eftir að ofur fellibylurinn Haiyan fór yfir landið. Sá var stærsti stormur sem nokkurn tímann hefur mælst á landi en yfir 6.300 létust í honum og heilu bæirnir jöfnuðust við jörðu.


Tengdar fréttir

Mikil eyðilegging á Filippseyjum

Dregið hefur úr styrk fellibylsins Hagupit, sem skók strendur Filippseyja, og er hann nú flokkaður sem hitabeltisstormur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×