Erlent

Ung börn farin að fá kryppu vegna mikillar snjallsímanotkunar

Vinstra megin má sjá óeðliega boginn hrygg sautján ára stráks. Til hægri er sextán ára stúlka sem er byrjuð að mynda með sér kryppu.
Vinstra megin má sjá óeðliega boginn hrygg sautján ára stráks. Til hægri er sextán ára stúlka sem er byrjuð að mynda með sér kryppu. mynd/Carter
Myndirnar hér til hliðar sýna hvernig unglingar og börn allt niður í sjö ára aldur eru farin að þróa með sér kryppu og óeðlilega bogna hryggjarsúlu vegna mikillar notkunar á snjallsímum. Fjallað er um málið hjá Telegraph.

Ástralskur kírópraktor hefur varað við því að það sem hann kallar „text-necks,“ sem gæti útlagst sem „síma-hálsar“ á íslensku og er tilkomið vegna ítrekaðrar símanotkunar, sé að verða að faraldri hjá ungum símanotendum.

Dr. James Carter segir að heilkennið geti valdið töluverðum skemmdum á hryggjarsúlunni og að tilfellum hafi fjölgað hratt á undanförnum árum. Nú sé það svo að helmingur þeirra þjáðu sé börn á gagnfræðiskólaaldri. 

„Í stað þess að sveigjan sé fram á við eru sjúklingar að sýna merki þess að sveigjan á hryggjarsúlunni vísi aftur. Þetta getur valdið haus-, háls-, axlar- og bakverkjum,“ segir Carter. 

Sérfræðingar beggja vegna Atlantsála hafa tekið í sama streng og Carter. Áhrifa snjallsímanotkunnar er farið að gæta jafnt í Bandaríkjunum sem og Bretlandi.

Háls sjö ára stráks fyrir (t.v.) og eftir (t.h.) meðferð vegna skekkju á hryggnum.mynd/carter
Rannsóknir gefa til kynna að fólk sé í snjallsímanum í allt að fjórar klukkustundir á dag. Það gera rúmar 1400 klukkustundir á ári sem fólk horfir niður á við og það getur leitt til töluverðs álags á stoðkerfið.

Dr. Carter, sem er fyrrum formaður Ástralsku hryggjarrannsóknarstofnunarinnar , segir að hryggurinn geti færst um allt að fjóra sentímetra með síendurteknu niðurliti. 

Þrátt fyrir það telur hann að megi koma í veg fyrir slíka hliðrun með reglulegri hreyfingu og því sem hann kallar „eðlilegri notkun“ líkamans. 

Carter hvetur fólk einnig til að nota ekki fartölvur eða síma þegar það situr eða liggur uppi í rúmi. Þess í stað skuli tækjunum lyft í augnhæð svo að komast megi hjá óþarfa álagi á hrygginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×