Erlent

Sá stutti sagður slasaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sá stutti í fylgd hermanna þegar hann var handtekinn í fyrra.
Sá stutti í fylgd hermanna þegar hann var handtekinn í fyrra. Vísir/AFP
Talið er að glæpaforinginn Joaquin Guzman, sem oftar en ekki gengur undir nafninu El Chapo eða „Sá stutti,“ hafi slasast þegar hann reyndi að flýja frá mexíkósku lögreglunni í gærkvöldi.  Þetta kemur fram á vef CNN. 

Guzman slapp úr fangelsi í júlí síðastliðnum í gegnum göng sem hann hafði grafið undir fangelsisveggina og hefur verið á flótta allar götur síðan.

Í tilkynningu sem mexíkóska lögreglan sendi frá sér í gær segir að hún hafi fengið vísbendingar um að Sá stutti héldi sig í norðausturhluta landsins. Lögreglan hafi blásið til sóknar á svæðinu þar sem talið varð glæpaforinginn feldi sig og hafi hann neyðst til að flýja. Á flóttanum er talið að hann hafi slasast á fæti og í andliti.

Upplýsingar um nákvæmari staðsetningu felustaðarins var ekki að finna í yfirlýsingunni, ekki frekar en hvenær aðgerðirnar fóru fram og hvernig glæpaforinginn slasaðist.

Þó var tekið fram að honum hafi ekki hlotnast áverkarnir vegna beinna viðskipta við lögregluna.



Víðfrægt yrkisefni heima fyrir


Sá stutti stýrði Sinaloa-glæpasamtökunum áður en hann var handtekinn árið 2014 en samtökin smygla gífurlegu magni eiturlyfja milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Samtökin eru til að mynda sögð ábyrg fyrir hinum mikla heróínfaraldri sem nú geisar á norðausturströnd Bandaríkjanna.

Sá stutti ber nafn með rentu, en hann er talinn rétt rúmlega 160 sentímetrar á hæð. Hann er svo frægur í Mexíkó að um hann hafa verið skrifaðar metsölubækur og þá hefur hann verið yrkisefni í fjölmörgum dægurlagatextum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×