Erlent

Eitur í þvagi frá myglusveppi í kornafurðum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Eitur í þvagi Norðmanna frá myglusveppi í kornafurðum er talið stafa af neyslu morgunkorns og brauðs. Á Ítalíu er samhengi milli neyslu pasta og eitursins í þvagi en í Bretlandi er eitrið í þvaginu rakið til kexáts.
Eitur í þvagi Norðmanna frá myglusveppi í kornafurðum er talið stafa af neyslu morgunkorns og brauðs. Á Ítalíu er samhengi milli neyslu pasta og eitursins í þvagi en í Bretlandi er eitrið í þvaginu rakið til kexáts. FRÉTTABLAÐIÐ/HARI
Af 250 Norðmönnum sem þátt tóku í rannsókn norskra, breskra og ítalskra vísindamanna reyndust 247 vera með eitur frá myglusveppi í kornafurðum í þvagi. Aðeins þrír voru ekki með eitrið deoksynivalenol, DON, í þvaginu. Mesta magnið reyndist vera í þvagi barna en þau borða hlutfallslega meira af mat en fullorðnir miðað við líkamsþyngd.

Í frétt á vef norska ríkisútvarpsins er vitnað í nefnd sérfræðinga um matvælaöryggi sem fyrir tveimur árum hafði áhyggjur vegna barna sem borða graut og brauð í miklu magni. Ekki er útilokað að langvarandi neysla eitursins geti verið skaðleg heilsunni.

Matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins hyggst nú nota niðurstöður norsku rannsóknarinnar til að reyna að reikna út hversu mikið af fyrrgreindu eitri var í matnum sem þátttakendur í rannsókninni neyttu. Mögulega verður hægt að ráðleggja hversu mikils af eitrinu verður hægt að neyta án þess að það valdi skaða.

Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að niðurstöður franskrar rannsóknar hafi sýnt bólguviðbrögð í heila og öðrum líffærum músa sem gefið var á hverjum degi í einn mánuð jafn mikið af eitrinu DON og norskir táningar fá í sig. Enn sé aðeins um vísbendingar að ræða sem rannsaka þurfi nánar áður en hægt verður að segja til um áhrifin á heilsu manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×