Erlent

Obama sendir 300 hermenn til Kamerún

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Predatordróni á flugi.
Predatordróni á flugi. Nordicphotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti fulltrúadeild þingsins í gær að 300 hermenn yrðu sendir til Kamerún. Hermennirnir munu manna nýja drónastöð Bandaríkjahers þar í landi.

Drónastöðin mun hafa það markmið að fylgjast með aðgerðum skæruliðasamtakanna Boko Haram, sem hliðholl eru Íslamska ríkinu. Samtökin eru mestmegnis starfrækt í Nígeríu sem á landamæri að Kamerún.

Um níutíu hermenn eru þegar komnir til landsins ásamt nokkrum óvopnuðum Predatordrónum. Hinir hermennirnir 210 munu koma til landsins á næstu vikum að sögn forsetaembættisins.

Þrátt fyrir að hafa aldrei beint sjónum sínum að Bandaríkjunum hefur Bandaríkjaforseti talsverðar áhyggjur af uppgangi Boko Haram en samtökin hafa valdið dauða um tuttugu þúsund manns í Afríku undanfarin ár.

Aðgerðirnar sem nú verður ráðist í eru umfangsmestu aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn Boko Haram til þessa. Áður hefur Bandaríkjaher ráðist í eina aðgerð gegn Boko Haram en áttatíu hermenn voru sendir til Tsjad í fyrra til að hafa uppi á 200 stelpum sem samtökin tóku til fanga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×