Handbolti

Guðjón Valur og félagar unnu stórsigur og settu met

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk í kvöld. vísir/getty
Spánar- og Evrópumeistarar Barcelona áttu ekki í teljandi vandræðum með að valta yfir GlobalCaja C. Encantada, 34-21, í sjöundu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands, skoraði þrjú mörk úr fjórum skotum fyrir Evrópumeistarana sem voru níu mörkum yfir í hálfleik, 18-9.

Með sigrinum í kvöld bætti Barcelona hreint ótrúlegt met, en liðið er nú búið að vinna 68 deildarleiki í röð í úrvalsdeildinni á Spáni.

Guðjón Valur varð meistari með liðinu á fyrsta ári í fyrra, en liðið vann deildina einnig tímabilið þar áður. Í heildina hefur Barcelona unnið úrvalsdeildina 14 sinnum frá því hún var stofnuð árið 1990 sem er met.

Barcelona er efst í deildinni, augljóslega með fullt hús stiga eða fjórtán stig eftir sjö umferðir. Naturhouse La Rioja fylgir Börsungum fast á eftir með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×