Erlent

Hermenn styðja lögreglu í Ísrael

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglumenn við lík mannsins sem stakk 70 ára gamla konu.
Lögreglumenn við lík mannsins sem stakk 70 ára gamla konu. V'isir/AFP
Ísraelski herinn hefur nú komið lögreglunni þar í landi til aðstoðar. Hundruð hermanna eru nú á götum borga í Ísrael eftir mikinn fjölda skot- og hnífaárása undanfarnar vikur, sem hafa valdið mikilli skelfingu meðal borgara.

Öryggisráð Ísrael ákvað þar að auki í dag að veita lögreglu heimild til að loka af stórum svæðum þar sem líkur eru á árásum. Margir árásarmannanna hafa komið frá hverfum í Jerúsalem þar sem arabar eru í meirihluta. Búið er að stinga upp á að þessum hverfum verði jafnvel lokað, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Öryggisráðið ákvað einnig að svipta árásarmenn rétti þeirra að búa á svæðinu og jafnvel jafna heimili þeirra við jörðu.

Lögreglan segir að í dag hafi 70 ára gömul kona verið stungin fyrir utan strætó í Jerúsalem og þá reyndi annar maður að stinga lögreglumenn. Báðir árásarmennirnir voru skotnir til bana. Í gær létust þrír Ísraelar og einn Palestínumaður, auk tveggja árásarmanna.

Undanfarnar vikur hafa átta Ísraelar látið lífið í árásum og 31 Palestínumaður. Þar af segja yfirvöld í Ísrael að 14 þeirra séu árásarmenn, en hinir létust í átökum við hermenn. Þá ætla Ísraelar ekki að koma líkum árásarmanna aftur til fjölskyldna þeirra.

Gilad Erdan, öryggismálaráðherra Ísrael, sagði í dag að jarðafarir árásarmanna hafi oft á tíðum snúist upp í stuðningssamkomur þar sem fólk er hvatt til frekari árása.

Árásirnar eru oft á tíðum framkvæmdar af ungu fólki, sem ekki hefur áður verið tengt við öfgasamtök og virðast þau gera árásirnar upp á sitt eindæmi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×