Erlent

Ólátabelgir valda usla vegna mínútu þagnar fyrir landsleik Tyrklands og Íslands

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lætin voru ótrúleg á leiknum í gær, of mikil segja sumir.
Lætin voru ótrúleg á leiknum í gær, of mikil segja sumir. Vísir/EPA
Athygli vakti að hópur áhorfenda á landsleik Tyrklands og Íslands virti ekki mínútu þögn sem haldin var fyrir leik liðanna. Twitter-notendur í  Tyrklandi hafa látið til sín taka vegna þess og þykir málið vera til marks um klofning í tyrknesku samfélagi. 

Einnar mínútu þögnin var til minningar um fórnarlömb sprengjuárásarinnar í Ankara á laugardaginn þar sem 97 létust og meira en 500 særðust. Árásin var gerð á friðarsamkomu sem m.a. var skipulögð af stjórnmálasamtökum sem styðja sjálfstæði Kúrda en tyrknesk yfirvöld hafa alla tíð barist gegn sjálfstæði Kúrda.

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi mátti greinilega heyra að þögnin var ekki virt og samkvæmt fregnum mátti heyra orðin Allahu Akbar eða Guð er mikill sem er þekkt bænaákall múslima. Leikurinn fór fram í Konya sem er í heimahéraði Ahmet Devotoglu, forsætisráðherra Tyrklands, og er þekkt vígi íhaldssemi í Tyrklandi.

Konya'da 'saygı duruşu': Ankara'da hayatını kaybedenler ıslıklandı from DikenComTr on Vimeo.

Ekki eru allir sáttir við þessi viðbrögð áhorfenda á leiknum og í dag var myllumerkið #UtanKonya eitt vinsælasta umræðuefnið á Twitter í Tyrklandi. Utan Konya myndi útleggjast á íslensku sem 'Ég skammast mín fyrir Konya'. Glöggir áhorfendur hafa jafnframt tekið eftir því að einhver hluti vallargesta reyndi að sussa á þá sem ekki virtu þögnina.

Mikil átök hafa átt sér stað í Tyrklandi undanfarna mánuði á milli herliðs Tyrkja og skæruliða Kúrda og létu fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Réttlætis- og þróunarflokksins sem fer með völd í Tyrklandi ekki sjá sig á minningarathöfnum vegna þeirra sem létu lífið í árásinni.


Tengdar fréttir

ISIS kennt um árásirnar í Ankara

Forsætisráðherra Tyrklands segir að ISIS hafi staðið á bakvið sprengjuárásirnar í Ankara á laugardaginn.

Þúsundir mótmæla árásinni

Stjórnvöld í Tyrklandi telja Íslamska ríkið hafa staðið að árás á útifund í Ankara um helgina. Kúrdar segja ábyrgðina hjá stjórnvöldum. Loftárásum haldið áfram þrátt fyrir einhliða vopnahlé af hálfu Kúrda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×