Handbolti

Sjö íslensk mörk í sigri Aue

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bjarki Már í leik með íslenska landsliðinu.
Bjarki Már í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Daníel
Lærisveinar Rúnars Sigtrygssonar í Aue unnu fimm marka sigur á Saarlouis á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handbolta í dag en íslensku leikmenn liðsins skiluðu sjö mörkum í leiknum.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins en á 20. mínútu náðu lærisveinar Rúnars tökum á leiknum og náðu forskotinu fyrir lok fyrri hálfleiks.

Aue leiddi með þremur mörkum í hálfleik, 14-11, en gerði út um leikinn á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks þegar þeir náðu ellefu marka forskoti.

Saarlouis tókst að saxa á forskot Aue eftir því sem leið á seinni hálfleikinn en tókst ekki að ógna forskotinu af neinni alvöru og unnu lærisveinar Rúnars því að lokum öruggan sigur.

Aue skaust upp í 4. sæti með sigrinum, upp fyrir Saarlouis og Nordhorn-Lingen en Aue er með 11 stig eftir átta leiki.

Árni Þór Sigtryggsson, Bjarki Már Gunnarsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson, sonur Rúnars, komust allir á blað í leiknum en Sigtryggur setti þrjú mörk í leiknum á meðan Bjarki og Árni settu tvö mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×