Handbolti

Guðjón Valur með fjögur mörk í öruggum sigri | Úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðjón Valur var öflugur að vanda.
Guðjón Valur var öflugur að vanda. Vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í Barcelona unnu sannfærandi tíu marka sigur á Montpellier á útivelli í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag en spænska liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð í keppninni.

Eftir tap gegn Alexanderi Peterssyni, Stefáni Rafni Sigurmannssyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen í fyrstu umferð tókst Börsungum að leggja sænska félagið Kristianstad og ungverska félagið Szeged að velli fyrir leik dagsins.

Sigur Barcelona í dag var sannfærandi en spænska félagið leiddi með sjö mörkum í hálfleik í stöðunni 19-12 og bætti við forskoti í seinni hálfleik. Lauk leiknum með tíu marka sigri Börsunga og setti Guðjón Valur fjögur mörk í leiknum.

Alexander og Stefán komust ekki á blað í 19-25 tapi Löwen gegn Vardar á útivelli í dag en góður seinni hálfleikur leikmanna Vardar skóp sigurinn. Leiddi Vardar 11-10 í hálfleik en gerði út um leikinn í seinni og vann að lokum sex marka sigur.

Lærisveinar Alfreðs slátruðu pólska félaginu Wisla Plock á útivelli.Vísir/getty
Þá unnu lærisveinar Alfreðs Gíslasonar öruggan sigur á pólska félaginu Wisla Plock í Póllandi í dag en þýska félagið leiddi með tíu mörkum að fyrri hálfleik loknum.

Þýsku meistararnir bættu við forskot sitt í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan fjórtán marka sigur, 37-23, en þetta var þriðji sigurleikur Kiel í röð eftir tap í fyrstu umferð.

Úrslit dagsins í Meistaradeild Evrópu:

Presov 19-27 Vojvodina

Kilece Vive 35-27 Kristianstad

Vardar 25-19 Rhein-Neckar Löwen

Barcelona 37-27 Montpellier

Porto 31-27 Chekhovskiye Medvedi

Wisla Plock 23-37 Kiel




Fleiri fréttir

Sjá meira


×