Handbolti

Ólafur Bjarki öflugur í tapleik gegn Wetzlar | Öll úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ólafur Bjarki í leik með íslenska landsliðinu gegn Þýskalandi.
Ólafur Bjarki í leik með íslenska landsliðinu gegn Þýskalandi. Vísir/getty
Ólafur Bjarki Ragnarsson átti góðan leik í liði Eisenach í 25-29 tapi gegn Wetzlar á heimavelli í lokaleik kvöldsins í 9. umferð þýsku úrvalsdeildarinnar en með sigrinum skaust Wetzlar upp í 4. sætið.

Eftir að hafa fengið skell í síðustu umferð gegn Hamburg mættu leikmenn Eisenach mun grimmari til leiks í dag en voru 11-13 undir í hálfleik. Leikmönnum Wetzlar tókst að bæta við forskotið í seinni hálfleik og unnu að lokum fjögurra marka sigur.

Ólafur Bjarki átti öfluga rispu í seinni hálfleik er hann setti þrjú mörk á tveimur mínútum en hann setti alls fimm mörk í liði Eisenach og var næst markahæstur á eftir Azat Valiullin.

Arnór Þór Gunnarsson, Björgvin Páll Gústavsson töpuðu í kvöld öðrum leiknum í röð í 30-35 tapi gegn Ballingen-Weilstetten á heimavelli Bergischer. Arnór komst á blað með þrjú mörk en Björgvin varði 7 skot í leiknum.

Rúnar Kárason komst á blað með eitt mark í 25-31 tapi Hannover-Burgdorf á heimavelli gegn Leipzig en á sama tíma komst Gunnar Steinn Jónsson ekki á blað með liði Gummersbach í 26-20 tapi gegn Lemgo á útivelli.

Það var hinsvegar boðið upp á íslenska markasúpu í leik Emsdetten og Dormagen í 2. deildinni í kvöld en Oddur Gretarsson var atkvæðamestur í liði Emsdetten með átta mörk.

Leiknum lauk með 30-25 sigri Emsdetten en Ernir Arnarson og Anton Rúnarsson komust báðir á blað með tvö mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×