Innlent

Fíkniefnin í Norrænu: Sagði dóttur sinni ekki hvert hún væri að fara í frí

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Parið kom hingað til lands með Norrænu.
Parið kom hingað til lands með Norrænu. vísir
Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð Héraðsdóms Austurlands þess efnis að hollensk kona sem grunuð er um stórfelldan fíkniefnainnflutning hingað til lands skuli sæta farbanni til 4. nóvember næstkomandi. Hún var látin laus úr gæsluvarðhaldi fyrir tveimur vikum í kjölfar þess að Hæstiréttur hrundi gæsluvarðhaldsúrskurði yfir henni en setti hana þess í stað í farbann.

Konan kom hingað til lands þann 8. september síðastliðinn ásamt manni sínum. Voru þau á húsbíl og komu hingað með Norrænu en við leit í húsbílnum fundust um 80 kíló af MDMA. Konan hefur neitað því að hafa vitað af efnunum í bílnum en maðurinn hefur játað að hafa vitað af þeim. Hann segir hins vegar einnig að konan hafi ekki vitað um þau. Maðurinn sætir gæsluvarðhaldi til 3. nóvember.

 

Þrátt fyrir þetta er konan undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningnum þar sem lögreglan telur framburð hennar mjög ótrúverðugan. Í úrskurði héraðsdóms er meðal annars rakið að ósamræmi sé á milli framburðar konunnar og dóttur hennar. Konan hafi sagt dóttur sinni að hún og maðurinn væru á leiðinni í frí en nefndi ekki að þau væru að fara til Íslands. Það sama hafi hún einnig sagt nágrönnum sínum.

Auk þessa hafi konan sagt að hún og maðurinn hafi verið í miklum fjárhagserfiðleikum en margir ógreiddir reikningar fundust í húsbílnum.

„Samt sem áður segi kærða að þau hafi ákveðið að fara í frí til Íslands í heilan mánuð, leigja til þess húsbíl fyrir 4.600 evrur og kaupa sér far fyrir þau og bílinn til Íslands fyrir um 2.000 evrur, auk þess sem [...] hafi látið hana hafa 1.600 evrur til að greiða reikninga, að hennar sögn,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Konan hefur sagt að hún sé öryrki og hafi verið atvinnulaus lengi. Atvinnuleysisbætur hennar séu 800 til 900 evrur á mánuði en útgjöldin milli 1800 til 2000 evrur. Í úrskurði héraðsdóms segir að konan „hafi engar skynsamlegar skýringar gefið á því hvaðan hún telji að þeir peningar sem allt í einu virtust vera til staðar séu komnir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×