Handbolti

Aron sýndi að hann er einn sá besti | Sjáðu mörkin og stoðsendingarnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson og félagar hans í Veszprém þurftu að sætta sig við tveggja marka tap gegn Paris Saint-Germain, 29-27, á útivelli í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta í gærkvöldi.

Þetta var fyrsti sigur PSG gegn Veszprém í sögu liðsins og jafnframt fyrsta tap ungversku meistaranna í Meistaradeildinni á þessari leiktíð. Með sigrinum komst Parísarliðið á topp riðiðlsins. Róbert Gunnarsson kom ekkert við sögu hjá PSG.

Aron Pálmarsson fór gjörsamlega á kostum í leiknum, en hann og Mirko Alilovic, markvörður ungverska liðsins, voru lang bestu leikmenn gestanna.

Aron kom inn á eftir um 20 mínútur og tók yfir leikinn fyrir sína menn. Hann skoraði sjö mörk og gaf fjórar gullfallegar stoðsendingar. Mörkin voru sum af dýrari gerðinni og stoðsendingarnar ekkert grín heldur.

Því miður fyrir Aron dugði þessi stjörnuframmistaða hans ekki til sigurs, en Peter Gulyas, hornamaður sem spilar sem skytta hjá Veszprém vegna meiðsla lykilmanna, klúðraði síðustu sókninni fyrir gestina og innsiglaði með því sigurinn fyrir PSG.

Í spilaranum hér að ofan má sjá mörkin hjá Aroni í gær og nokkrar af hans geggjuðu stoðsendingum.


Tengdar fréttir

Aron með sjö en það dugði ekki til gegn PSG

PSG og Veszprém mættust í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag og fór leikurinn fram í París. Heimamenn voru sterkari undir lokin og unnu að lokum 29-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×