Erlent

Ók drukkin inn í hóp áhorfenda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Að sögn viðbragðsaðila var aðkoman að slysstað ekki fögur.
Að sögn viðbragðsaðila var aðkoman að slysstað ekki fögur. Vísir/afp
Á fimmta tug eru særðir eftir að bíl var ekið inn í hóp fólks sem fylgdist með hátíðarhöldum í Oklahoma í dag, þar af ellefu börn.

Alls létust fjórir þegar ökumaður grárrar Honda bifreiðar ók inn í mannmergðina sem saman var komin í borginni Stillwater, rúma 130 kílómetra norðaustan af Oklahoma City. Eitt þeirra látnu var kornabarn.

Íbúar borgarinnar höfðu safnast saman til að fylgjast með árlegri skrúðgöngu fyrir leik ruðningsliðs Ohio State háskólans þegar bílstjórinn ók inn í hópinn. Talið er að ökumaðurinn, sem Reuters segir vera hina 25 ára gömlu Avery Chambers, hafi verið ölvaður.

Í tilkynningu frá lögreglu borgarinnar er tiltekið að 36 fullorðinir hafi slasast, þar af fimm lífshættulega.

Faðir ökumannsins sagði í samtali við miðilinn Oklahoman að hann hafi frétt af slysinu á samfélagsmiðlum og væri í losti.

„Ég skil þetta ekki. Þessi manneskja er ekki dóttir mín sem ég þekki. Ég trúi því ekki að áfengi hafi átt hlut í máli. Ég veit ekki til þess að hún sé áfengissjúklingur“, sagði faðirinn Floyd Chambers.

Nærliggjandi götum var lokað meðan fjölmennar aðgerðir lögreglu og sjúkraliða stóðu yfir. Þrátt fyrir háværar raddir þess efnis var fyrrnefndur ruðningsleikur ekki blásinn af. Um 25 þúsund manns stunda nám við háskólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×