Erlent

Kosið til þings í Póllandi í dag

Vaka Hafþórsdóttir skrifar
Jaroslaw Kaczynski er leiðtogi íhaldsflokksins sem talinn er að eigi eftir að standa uppi sem sigurvegari kosninganna.
Jaroslaw Kaczynski er leiðtogi íhaldsflokksins sem talinn er að eigi eftir að standa uppi sem sigurvegari kosninganna. Vísir/EPA
Þingkosningar fara fram í Póllandi í dag. Skoðanakannanir gefa til kynna að íhaldsflokkurinn Lög og réttur undir forystu Jaroslaw Kaczynski muni sigra kosningarnar en sá flokkur hefur verið í stjórnarandstöðu undanfarin átta ár.

Borgaraflokkurinn hefur verið við völd síðustu fjögur ár en sitjandi forsætisráðherra er Ewa Kopacz. Flokkurinn hefur átt undir högg að sækja í komandi kosningum þrátt fyrir að tölur bendi til þess að stöðugleiki hafi aukist í efnahagsmálum í valdatíð hennar.

Skoðanakannanir benda til þess að íhaldsflokkurinn Lög og réttur fái mest fylgi en þær bjartsýnustu spá flokknum hreinum meirihluta á þinginu. Beata Szydlo er forsætisráðherraefni flokksins en hún var meðal annars kosningarstjóri forseta Póllands, Andrzejs Duda, sem tók við embættinu þann 6. ágúst fyrr á þessu ári.

Flóttamannavandinn hefur mikið verið ræddur í aðdraganda kosninganna en núverandi ríkisstjórn hefur samþykkt að taka á móti 7.000 innflytjendum. Jaroslaw Kaczynski formaður Laga og réttar hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sín um að fara þurfi varlega í móttöku innflytjenda þar sem þeir gætu borið með sér sjúkdóma og sníkjudýr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×