Erlent

Wikileaks hyggst birta trúnaðarupplýsingar frá CIA

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
John Brennan, æðsti yfirmaður CIA.
John Brennan, æðsti yfirmaður CIA. vísir/epa
Uppljóstrunarsíðan Wikileaks hefur komist yfir tölvupósta Johns Brennan, æðsta yfirmanns bandarísku leyniþjónustunnar, og segist ætla að birta þá alla fljótlega. Þegar er búið að birta sex blaðsíður úr tölvupóstinum, þar sem umsókn um öryggisaðgang auk annarra trúnaðarupplýsinga er að finna.

Wikileaks greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í dag. Þar segir að í tölvupóstinum séu meðal annars skjöl er varða þjóðaröryggi Bandaríkjanna og tillögur til breytinga um yfirheyrsluaðferðir.

Uppljóstrararnir segjast ætla að birta gögnin á vefsíðu þeirra næstu daga. Bandaríska leyniþjónustan fullyrðir þó að engin trúnaðargögn séu að finna í tölvupósti Brennan, en að málið sé í rannsókn.  

Talið er að uppljóstrarinn sé þrettán ára piltur sem segist ósáttur við utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Starfsmenn ríkisins hafa verið hvattir til að nota opinber netföng þó dæmi séu um að háttsettir embættismenn visti gögn sín annars staðar. Þar má nefna Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, en henni hefur verið gert að afhenda bandarísku alríkislögreglunni þúsundir blaðsíðna af tölvupóstum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×