Handbolti

Hálfleiksræða Erlings dugði næstum því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Richardsson,
Erlingur Richardsson, Vísir/Vilhelm
Füchse Berlin, lið Erlings Richardssonar, tapaði á útivelli á móti FA Göppingen í kvöld í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.

FA Göppingen vann leikinn 25-23 en liðið komst upp fyrir Füchse Berlin í töflunni með þessum sigri.

Refirnir voru skelfilegir í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að hálfleiksræða Erlings hafi vakið þá af værum blundi þá dugði það ekki.

Erlingur tók við liði Füchse Berlin af Degi Sigurðssyni fyrir tímabilið og liðið vann fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum.

Tapið í kvöld var aðeins annað tap liðsins í þýsku deildinni í fyrstu tíu umferðunum en þrír af fjórum leikjum á undan höfðu hinsvegar endað með jafntefli.

Bjarki Már Elísson var valinn í landsliðið í gær en hann komst ekki á blað í leiknum í kvöld.

FA Göppingen var miklu betra í fyrri hálfleik og var sex mörkum yfir í hálfleik, 14-8.

Erlingur náði að laga leik sinna mann í hálfleik og Refirnir voru búnir að jafna í 16-16 eftir tólf mínútna leik í seinni hálfleiknum.

Füchse Berlin komst síðan yfir í 20-18 en þá komu þrjú mörk í röð hjá heimamönnum sem voru síðan sterkari aðilinn í lokin.

Petar Nenadic skoraði sex mörk fyrir Füchse Berlin og var markahæstur á vellinum en Marcel Schiller skoraði fimm mörk fyrir Göppingen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×