Handbolti

Kiel lenti í vandræðum en hélt áfram sigurgöngu sinni á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. Vísir/Getty
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar lentu í miklum vandræðum á heimavelli í Meistaradeildinni í kvöld en redduðu sér með góðum endaspretti.

Kiel vann þriggja marka heimasigur á slóvenska liðinu RK Celje, 35-32, eftir að hafa vera mest fjórum mörkum undir í seinni hálfleiknum.  Kiel hefur þar með unnið alla tíu heimaleiki tímabilsins í öllum keppnum.

Domagoj Duvnjak var markahæstur hjá Kiel með 8 mörk en Rune Dahmke skoraði 6 mörk eins og Spánverjinn Joan Canellas. Blaz Janc skoraði mest fyrir Celje eða sjö mörk.

RK Celje heimsótti Flensburg-Handewitt til Þýskalands fyrir tíu dögum en þurfti þá að sætta sig við tíu marka tap. Nú spilaði liðið miklu betur.  

Kiel tapaði fyrir ungverska liðinu Veszprém KC í Meistaradeildinni um síðustu helgi og það er ekki oft sem lið Alfreðs tapa tvisvar á fjórum dögum enda kom það á daginn að strákarnir hans fundu aukagír þegar stefndi í tap undir lok leiksins.

Kiel náði mest fjögurra marka forystu í fyrri hálfleiknum, 12-8 og 15-11 en slóvenska liðið minnkaði muninn í tvö fyrir mörk fyrir hálfleik, 16-14.

Króatinn Domagoj Duvnjak skoraði fimm mörk í fyrri hálfleiknum en það hægðist töluvert á markaskorun hans í upphafi þess síðari.

Kiel var þremur mörkum yfir, 18-15, eftir þriggja mínútna leik í seinni hálfleik en þá fór allt í baklás og Celje vann næstu tíu mínútur 10-3 og náði fjögurra marka forystu, 25-21.

Kiel vaknaði þá af værum blundi og næstu þrjú mörk voru þýsk og munurinn því aftur bara eitt mark.

Kiel snéri síðan leiknum þegar tæpar átta mínútur voru eftir þegar liðið breytti stöðunni úr 27-30 í 34-31 á aðeins rúmum sex mínútum. Eftir það var Kiel með tök á leiknum sem liðið hélt til leiksloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×