Fótbolti

Lokeren þarf að borga minnst 430 milljónir fyrir Rúnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kristinsson er með Lilleström um miðja deild í Noregi á sínu fyrsta tímabili.
Rúnar Kristinsson er með Lilleström um miðja deild í Noregi á sínu fyrsta tímabili. mynd/lsk.no
Rúnar Kristinsson, þjálfari Lilleström í norsku úrvalsdeildinni, er orðaður við þjálfarastarfið hjá Lokeren í Belgíu í fjölmiðlum þar í landi.

Lokeren er í miklum vandræðum í belgísku úrvalsdeildinni, en liðið er í 15. og næst neðsta sæti eftir ellefu umferðir með átta stig og er búið að tapa fjórum leikjum í röð.

Sæti Bob Peeters, þjálfara liðsins, er orðið ansi heitt og hefur Rúnar verið orðaður við starfið, en hann spilaði með Lokeren frá 2000-2007 við góðan orðstír.

„Rúnar hefur staðið sig frábærlega fyrir okkur,“ segir Torgeir Bjarman, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lilleström, í viðtali við Verdens Gang. Torgeir er góðvinur Rúnars og maðurinn sem fékk hann í starfið.

Rúnar hefur þurft að endurmóta Lilleström-liðið eftir mikið tekjutap félagsins á undanförnum árum, en fyrr á þessu ári var tekið í gagnið launaþak sem gerir Lilleström ekki lengur samkeppnishæft í baráttunni um stærstu bitana.

„Hann er arkitektinn af hinu nýja Lilleström-liði,“ segir Torgeir sem vill ekki missa Rúnar til Belgíu.

Lilleström hefur þurft að selja sína bestu leikmenn á undanförnum árum. Sóknarmaðurinn Antony Ujah fór tl Þýskalands árið 2011 og svo var Björn Bergmann Sigurðarson seldur fyrir 28 milljónir norskra króna eða 430 milljónir íslenskra.

„Rúnar er að minnsta kosti jafn mikils virði og dýrustu leikmennirnir sem við höfum selt. Ég mun samt ekki tala um peninga. Rúnar er ekkert á leið til Lokeren. Hann er samningsbundinn okkur í tvö ár í viðbót,“ segir Torgeir Bjarmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×