Erlent

Ban Ki-moon reynir að stilla til friðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmenn mótmæli Palestínumanna hafa verið mörg undanfarin misseri.
Fjölmenn mótmæli Palestínumanna hafa verið mörg undanfarin misseri. Vísir/EPA
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun heimsækja Ísrael og Palestínu óvænt í dag. Tilefni heimsóknarinnar er hin mikla aukning ofbeldis og árása á svæðinu síðasta mánuðinn. Palestínumenn hafa gert fjölmargar skot- og hnífaárásir í Ísrael. Þær hafa leitt til hefndarárása og aukinnar spennu.

Ofbeldið blossaði upp eftir deilur gyðinga og múslima um heilagt hof í Jerúsalem, sem báðar fylkingar gera tilkall til. Nýjasta árásin varð í dag, þegar 24 ára maður frá Palestínu stakk og særði hermann á Vesturbakkanum. Árásarmaðurinn var skotinn til bana.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.Vísir/EPA
Ban Ki-moon mun ræða við Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Ferð framkvæmdastjórans var einungis tilkynnt í dag og ljóst að um skyndiákvörðun er að ræða. Á fimmtudaginn mun John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, einnig ræða við Abbas og Netanyahu, sem og Abdullah, konung Jórdaníu.

Ban segist skilja reiði Ísraela með tilliti til aðstæðna. Þó væru aukin öryggisgæsla og hertar refsingar ekki líklegt til að stuðla að friði.

„Þegar börn eru hrædd við að afar í skólann og þegar gangandi vegfarendur eru mögulega fórnarlömb. Veggir, eftirlitsstöðvar, hörð viðbrögð, öryggissveitir og eyðilegging heimila getur hins vegar ekki stuðlað að þeim friði og öryggi sem þið þurfið að hafa.“

Átta Ísraelar hafa látið lífið í árásum. Þar að auki lést maður frá Erítreu eftir að hann var skotinn af öryggisverði sem hélt að hann væri árásarmaður. Fjölmargir hafa einnig særst í árásunum. Minnst 42 Palestínumenn hafa látið lífið og þar af eru um 20 árásarmenn og einn mótmælandi sem hermenn segja að hafi skotið að sér.


Tengdar fréttir

Tveir látnir eftir árás á strætisvagnastöð

Ísraelskur lögreglumaður féll þegar maður, sem talinn er hafa verið Palestínuarabi, skaut af byssu og réðist að fólki með hníf á lofti á strætisvagnastöð í ísraelska bænum Beersheba í nótt. Sex slösuðust í árásinni en ódæðismaðurinn var felldur af lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×