Fótbolti

Vafasöm vítaspyrna reyndist Ólafi dýrkeypt

Eiríkur Stefán Ásgeirson skrifar
Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni hjá Nordsjælland fyrr í þessum mánuði.
Ólafur Kristjánsson á hliðarlínunni hjá Nordsjælland fyrr í þessum mánuði. Vísir/Getty
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland, mátti sætta sig við svekkjandi tap gegn Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld, 2-1.

Marcus Ingvartsen kom lærisveinum Ólafs yfir strax á elleftu mínútu og leit lengi vel út fyrir að það myndi reynast eina mark leiksins.

En vendipunktur leiksins kom tíu mínútum fyrir leikslok. Andreas Maxsø fékk þá dæmda á sig afar vafasama vítaspyrnu fyrir að handleika knöttinn. Maxsø stóð eftir með blóðnasir enda virtist hann hafa fengið boltann í andlitið.

Dómurinn stóð engu að síður og Nicki Bille skoraði jöfnunarmark Esbjerg úr vítaspyrnunni. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði svo Lasse Rise sigurmark Esbjerg eftir skyndisókn og þar við sat.

Guðmundur Þórarinsson kom inn á sem varamaður á 71. mínútu í leiknum en Adam Örn Arnarson sat allan leikinn á bekknum. Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í hópnum.

Nordsjælland er í sjöunda sæti dönsku deildarinnar með nítján stig en þetta var þriðji tapleikur liðsins í síðustu fjórum leikjum sínum. Esbjerg er í tíunda sætinu með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×