Handbolti

Dagur og þýska landsliðið unnu Súperbikarinn | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson vann bikar með þýska landsliðinu í dag.
Dagur Sigurðsson vann bikar með þýska landsliðinu í dag. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson stýrði þýska handboltalandsliðinu til sigurs í Súperbikarnum sem er æfingamót sem þýska handboltalandsliðið heldur reglulega.

Þýskaland vann 31-28 sigur á Slóvenum í lokaleik mótsins en þýska liðið hafði áður unnið 29-20 sigur á Brasilíu og 37-26 sigur á Serbíu.

Þýska liðið lagði grunninn að sigrinum á Slóveníu með því að breyta stöðunni úr 7-6 í 15-8. Þýskaland var síðan 17-11 yfir í hálfleik.

Jannik Kohlbacher (7 mörk) og Steffen Fäth (6 mörk) voru markahæstir í sigrinum á Slóveníu en Andreas Wolff var einnig mjög góður í markinu.

„Við byrjuðum vel og náðum strax forystunni. Það hjálpaði okkur að vera á heimavelli en það verður mun erfiðara að mæta þeim í riðlakeppninni í Póllandi. Við megum ekki draga of miklar ályktanir frá þessum leik því Slóvenía hvíldi nokkra leikmenn í þessum leik," sagði Dagur Sigurðsson, í viðtali á heimasíðu þýska sambandsins.

Þjóðverjar eru í riðli með Slóveníu á EM í Pólland sem fer fram í janúar á næsta ári. Þau mætast því í öllu mikilvægari leik eftir tvo mánuði.

„Ég er heilt yfir ánægður með mótið en Slóveníuleikurinn var erfiðasti leikurinn. Liðið hélt góðri einbeitingu og leikmenn voru með rétta hugarfarið alla þrjá dagana," sagði Dagur.

Slóvenar urðu í öðru sæti á mótinu en Brasilíumenn tryggðu sér þriðja sætið með því að vinna Serbíu í lokaleiknum.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af Degi Sigurðssyni í leiknum í dag.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×