Handbolti

Öruggur sigur hjá strákunum hans Dags

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson stýrir hér þýska landsliðinu í kvöld.
Dagur Sigurðsson stýrir hér þýska landsliðinu í kvöld. Vísir/Getty
Þýska handboltalandsliðið vann öruggan níu marka sigur á Brasilíumönnum í kvöld, 29-20, í fyrsta leik liðanna á Supercup æfingamótinu í Þýskalandi.

Dagur Sigurðsson er sem fyrr þjálfari þýska landsliðsins sem er að hefja undirbúning sinn fyrir Evrópumótið í Póllandi í janúar.

Dagur var ekki alveg sáttur í leikslok og náði sér í tveggja mínútna brottvísun sekúndu fyrir leikslok.

Vinstri hornamaðurinn Uwe Gensheimer var markahæstur í þýska landsliðinu með sex mörk en þrjú þeirra komu af vítalínunni.

Brasilíumenn komust tvisvar yfir í fyrri hálfleiknum (5-4 og 6-5) en annars var forystan Þjóðverja sem voru með þriggja marka forskot í hálfleik, 15-12.

Þjóðverjar gáfu í í upphafi seinni hálfleiks og voru komnir með átta marka forystu, 22-14, um hann miðjan eftir að hafa unnið fyrstu fimmtán mínútur hans 7-2.

Eftir það var sigurinn nánast í höfn og í lokin munaði níu mörkum á liðunum.  

Með Þýskalandi og Brasilíu á mótinu eru Serbía og Slóvenía sem mætast seinna í kvöld. Þjóðverjar mæta síðan Serbum á morgun og Slóvenum í lokaleiknum á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×